Ársreikningur Samkaupa hf. fyrir árið 2022 er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) eins og þeir eru staðfestir af Evrópusambandinu.
Meginstarfsemi Samkaupa hf. er að reka verslanir víða um land ásamt því að stunda innflutning á aðföngum. Verslanir eru reknar undir nöfnunum Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.
Rekstrartekjur félagsins á árinu 2022 námu 40.840 millj. kr. (2021: 40.009 millj. kr.) og hækkuðu um rúmlega 2% milli ára. Framlegð af vörusölu nam 10.111 millj. kr. eða 24,8% af tekjum sem er 284 millj. kr. hækkun frá fyrra ári (2021: 9.827 millj. kr og 24,6% af tekjum). Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir á árinu 2022 nam 1.916 millj. kr. (2021: 2.427 millj. kr.) og lækkaði um tæplega 21% milli ára. Samkvæmt rekstrarreikningi og yfirliti um heildarafkomu nam tap ársins 192 millj. kr. (2021: hagnaður 461 millj. kr.)
Fastafjármunir jukust um 1.081 millj. kr. á árinu 2022 og námu 15.837 millj. kr. í árslok. Hækkunin skýrist að mestu af fjárfestingum í nýjum verslunum og fjárfestingum í hugbúnaðarþróun, sjá betur skýringar 8 og 9. Veltufjármunir lækkuðu um 170 millj. kr. á árinu 2022 og námu 4.265 millj. kr. í lok árs 2022. Eignir í lok árs 2022 námu 20.101 millj. kr. (2021: 19.191 millj.kr.). Eigið fé félagsins í árslok var 3.021 millj. kr. (2021: 3.563 millj. kr.) að meðtöldu hlutafé að nafnverði 390 millj. kr. Vísað er til eiginfjáryfirlits um breytingar á eiginfjárreikningum á árinu. Eiginfjárhlutfall félagsins í árslok var 15,0% (2021: 18,6%). Langtímaskuldir og skuldbindingar námu 11.510 millj. kr. í lok árs 2022, sem er hækkun um 975 m.kr. frá fyrra ári.
Handbært fé frá rekstri nam 1.667 millj. kr. samanborið við 901 millj. kr árið 2021. Fjárfest var í rekstrarfjármunum fyrir 989 millj. kr. á árinu og í óefnislegum eignum fyrir 507 millj. kr. á árinu. Á árinu greiddi félagið arð til hluthafa að fjárhæð 350 m.kr. Eldri langtímalán voru endurfjármögnuð með 2.500 nýju láni og afborganir langtímalána námu 1.737 millj. kr. Sjá nánari umfjöllun í skýringu 13. Handbært fé hækkaði um 3 millj. kr. og endaði í 338 millj. kr. í árslok 2022, samanborið við 335 millj. kr. í lok árs 2021.
Stjórn félagsins fjallaði á fundum sínum í upphafi árs um stöðu félagsins vegna COVID-19 en sóttvarnaraðgerðir og fjöldatarkmarkanir voru í gildi til 25. febrúar 2022. Áhersla var lögð á að tryggja rekstrarsamfellu og huga að öryggi og velferð starfsmanna. Það er mat stjórnar og stjórnenda að dagvörumarkaðurinn hafi tekið breytingum eftir febrúar þar sem veltan drógst saman og markaðurinn minnkaði. Þó að erlend velta hafi aukist þá hafi hún ekki náð að vega að fullu upp á móti samdrættinum.
Í lok ársins voru 106 hluthafar í félaginu en þeir voru 108 í upphafi árs.
Stjórn félagsins leggur til að allt að 150 millj. kr. verði greiddar í arð til hluthafa á árinu 2023, en vísar að öðru leyti í ársreikninginn um breytingar á eigin fé félagsins og ráðstöfun hagnaðar.
Stjórn félagsins leggur áherslu á að viðhalda góðum stjórnarháttum og fylgir leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar voru út af Viðskiptaráði Íslands, NASDAQ Iceland og Samtökum atvinnulífsins í júní 2015. Stjórnin hefur sett sér starfsreglur þar sem valdsvið hennar er skilgreint og fer að öðru leyti eftir samþykktum félagsins og lögum um hlutafélög.
Stjórn félagsins í árslok 2022 var skipuð eftirfarandi einstaklingum: Sigurbjörn J. Gunnarsson formaður, Skúli Þ. Skúlason, Margrét Guðnadóttir, Halldór Jóhannsson og Guðfinna S. Bjarnadóttir. Hlutfall kvenna í stjórn er 40% en karla 60%. Félagið uppfyllir því ákvæði hlutafélagalaga um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Frekari upplýsingar um stjórn og stjórnarhætti er að finna á heimasíðu félagsins.
Félagið er með stefnu í samfélagsábyrgð og hefur um langt skeið unnið að mikilvægum samfélagsmálum í eigin starfsemi. Áhersla hefur verið lögð á að félagið sé öflugur þátttakandi í samfélaginu, leggi góðum málefnum lið og hafi jákvæð áhrif á þróun samfélagsins. Þannig hefur félagið m.a. beitt sér fyrir minni sóun, bættu umhverfi og heilsueflingu. Stjórnendur leggja áherslu á að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni og nýta auðlindir eins og kostur er.
Starfsfólk Samkaupa er ein helsta auðlind félagsins og lykilþáttur í að ná góðum árangri. Félagið hefur skýra stefnu í jafnréttismálum sem er órjúfanlegur hluti af heildarstefnu þess. Samkaup hlutu þriðja árið í röð Jafnvægisvogina 2022, viðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu til fyrirtækja sem stefna að 40/60 kynjahlutfalli í efsta stjórnendalagi og hafa gripið til aðgerða til að ná því fram og haga ráðningum í stöður í samræmi við þær. Samkaup hlutu einnig The Blaze Awards í flokknum The Synergist en verðlaunin voru afhent á samnorrænni jafnréttisráðstefnu í Osló. Samkaup voru í flokki með öðrum fyrirtækjum á öllum Norðurlöndunum og hrepptu verðlaunin vegna skuldbindingar félagsins í jafnréttismálum og þeirri vegferð sem félagið er á í þessum málaflokki. Samkaup hlutu Menntaverðlaun Samtaka atvinnulífsins á árinu.
Frekari upplýsingar um ófjárhagsleg málefni félagsins er að finna í þessari samfélagsskýrslu.
Samkvæmt bestu vitneskju er það álit okkar að ársreikningurinn gefi glögga mynd af rekstrarafkomu á árinu 2022, eignum, skuldum og fjárhagsstöðu 31. desember 2022 og breytingu á handbæru fé á árinu 2022.
Jafnframt er það álit okkar að ársreikningurinn og skýrsla stjórnar og forstjóra geymi glöggt yfirlit um þróun og árangur í rekstri félagsins, stöðu þess og lýsi helstu áhættuþáttum og óvissu sem félagið býr við.
Stjórn og forstjóri Samkaupa hf. hafa í dag farið yfir ársreikning félagsins fyrir árið 2022 og staðfesta hann með undirritun sinni. Stjórn og forstjóri leggja til við aðalfund félagsins að samþykkja ársreikninginn.
Reykjanesbær, 8. mars 2022
Í stjórn
Sigurbjörn Gunnarsson stjórnarformaður
Margrét Katrín Guðnadóttir
Halldór Jóhannsson
Skúli Þ. Skúlason
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Forstjóri
Gunnar Egill Sigurðsson
Ársreikningur Samkaupa hf. fyrir árið 2022 er rafrænt undirritaður af stjórn og forstjóra.
Við höfum endurskoðað meðfylgjandi ársreikning Samkaupa hf. fyrir árið 2022. Ársreikningurinn hefur að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, yfirlit um breytingu á eigin fé, yfirlit um sjóðstreymi, upplýsingar um mikilvægar reikningsskilaaðferðir og aðrar skýringar.
Það er álit okkar að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu 2022, efnahag þess 31. desember 2022 og breytingu á handbæru fé á árinu 2022, í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið samþykktir af Evrópusambandinu og viðbótarkröfur í lögum um ársreikninga.
Endurskoðað var í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Ábyrgð okkar samkvæmt þeim stöðlum er nánar lýst í kaflanum um ábyrgð endurskoðenda hér að neðan. Við erum óháð Samkaupum hf. í samræmi við alþjóðlegar siðareglur sem og aðrar siðareglur sem eru viðeigandi við endurskoðun á Íslandi, og höfum við uppfyllt ákvæði þeirra reglna. Við teljum að við endurskoðunina höfum við aflað nægilegra og viðeigandi gagna til að byggja álit okkar á.
Stjórn og forstjóri bera ábyrgð á öðrum upplýsingum. Aðrar upplýsingar innifela skýrslu stjórnar.
Álit okkar á ársreikningnum nær ekki yfir aðrar upplýsingar og við ályktum hvorki um, né veitum staðfestingu á efni þeirra ef frá er talin sú staðfesting varðandi skýrslu stjórnar sem fram kemur hér að neðan.
Í tengslum við endurskoðun okkar berum við ábyrgð á að lesa framangreindar aðrar upplýsingar og skoða hvort þær séu í verulegu ósamræmi við ársreikninginn eða þekkingu okkar sem við höfum aflað við endurskoðunina eða virðast að öðru leyti innifela verulegar skekkjur. Ef við komumst að þeirri niðurstöðu, byggt á þeirri vinnu sem við höfum framkvæmt, að það séu verulegar skekkjur í öðrum upplýsingum ber okkur að skýra frá því. Það er ekkert sem við þurfum að skýra frá hvað þetta varðar.
Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 104 gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga staðfestum við samkvæmt okkar bestu vitund að í skýrslu stjórnar sem fylgir ársreikningi þessum eru veittar þær upplýsingar sem þar ber að veita í samræmi við lög um ársreikninga og koma ekki fram í skýringum.
Stjórn og forstjóri eru ábyrg fyrir gerð og framsetningu ársreikningsins í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir hafa verið samþykktir af Evrópusambandinu og viðbótarkröfur í lögum um ársreikninga. Stjórn og forstjóri eru einnig ábyrg fyrir því innra eftirliti sem nauðsynlegt er varðandi gerð og framsetningu ársreikningsins, þannig að hann sé án verulegra annmarka, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka.
Við gerð ársreikningsins eru stjórn og forstjóri ábyrg fyrir því að meta rekstrarhæfi Samkaupa hf.
Ef við á, skulu stjórn og forstjóri setja fram viðeigandi skýringar um rekstrarhæfi og hvers vegna þau ákváðu að beita forsendunni um rekstrarhæfi við gerð og framsetningu ársreikningsins, nema stjórn og forstjóri hafi ákveðið að leysa félagið upp eða hætta starfsemi, eða hafi enga aðra raunhæfa möguleika.
Markmið okkar er að afla nægjanlegrar vissu um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka, hvort sem er af völdum sviksemi eða mistaka og að gefa út áritun sem felur í sér álit okkar.
Nægjanlega vissa er þó ekki trygging þess að endurskoðun framkvæmd í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla muni uppgötva allar verulegar skekkjur séu þær til staðar. Skekkjur geta orðið vegna mistaka eða sviksemi og eru álitnar verulegar ef þær gætu haft áhrif á fjárhagslega ákvarðanatöku notenda ársreikningsins, einar og sér eða samanlagðar.
Endurskoðun okkar í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla byggir á faglegri dómgreind og beitum við gagnrýnni hugsun við endurskoðunina. Við framkvæmum einnig eftirfarandi:
Okkur ber skylda til að upplýsa stjórn meðal annars um áætlað umfang og tímasetningu endurskoðunarinnar og veruleg atriði sem komu upp í endurskoðun okkar, þar á meðal verulega annmarka á innra eftirlit sem komu fram í endurskoðuninni, ef við á.
Reykjanesbær, 8. mars 2022
Deloitte ehf.
Birna María Sigurðardóttir endurskoðandi
Kristján Þór Ragnarsson endurskoðandi
Ársreikningur Samkaupa hf. fyrir árið 2022 er rafrænt undirritaður af endurskoðanda.
Samkaup hf. starfar á grundvelli laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Höfuðstöðvar félagsins eru að Krossmóa 4, Reykjanesbæ.
Meginstarfsemi Samkaupa hf. er að reka verslanir víða um land ásamt því að stunda innflutning á aðföngum. Verslanir félagsins eru 64 talsins og eru reknar undir nöfnunum Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland.
Ekki kemur til greiðslu tekjuskatts á árinu 2023 þar sem tekjuskattstofn félagsins er neikvæður (2022: 4,4 millj. kr.).
Greining á virku skatthlutfalli:
Viðskiptavild hefur verið úthlutað á eftirfarandi fjárskapandi einingar fyrir virðisrýrnunarpróf. Taflan sýnir bókfært virði þeirra og núvirðingarhlutföll (WACC) sem notuð eru við mat á nýtingarvirði.
Endurheimtanlegt virði fjárskapandi eininga er ákvarðað út frá útreikningi á nýtingarvirði þeirra þar sem framtíðarsjóðstreymi byggir á fjárhagsáætlunum til næstu fimm ára samþykktum af stjórnendum.
Sjóðstreymi á þessu fimm ára tímabili er byggt á sömu framlegð og stöðugri hækkun á verði aðfanga á tímabilinu. Sjóðstreymi eftir þetta tímabil er framreiknað með stöðugum 2% árlegum vexti umfram verðbólgu (2021: 2%). Stjórnendur telja að allar mögulegar raunhæfar breytingar á lykilforsendum muni ekki leiða af sér að bókfært verð verði hærra en endurheimtanlegt virði fjárskapandi eininga.
Vörubirgðir í lok ársins hafa verið metnar með tilliti til seljanleika og færðar niður samkvæmt því mati. Kostnaðarverð seldra vara í rekstrarreikningi endurspeglar gjaldfærslu á vörubirgðum, þar með talið breytingar á niðurfærslu birgða á árinu.
Vörubirgðir eru veðsettar fyrir langtímaskuldum félagsins.
Félagið metur sameiginlega niðurfærslu viðskiptakrafna út frá sögulegri reynslu um innheimtur, og tekur tillit til núverandi og framtíðaraðstæðna þar sem við á. Sértæk niðurfærsla er færð fyrir kröfur þar sem hlutlægar vísbendingar um virðisrýrnun eru til staðar, s.s. fjárhagslegir erfiðleikar skuldara. Sögulega hafa tapaðar kröfur verið óveruleg fjáhæð og er það mat stjórnenda að ekki sé þörf á að færa niðurfærslu vegna viðskiptakrafna í árslok 2022 (Óbreytt frá árinu 2021).
Viðskiptakröfur eru veðsettar fyrir langtímaskuldum félagsins.
Hver hlutur er 1 króna að nafnverði. Eigendur hluta í félaginu eiga rétt til atkvæðaréttar og arðs í hlutfalli við eign sína.
Afborganir af langtímaskuldum greinast þannig:
Hreyfingar á langtímaskuldum greinast þannig:
Skuldir við lánastofnar eru óverðtryggðar og bera breytilega vexti. Vegnir meðalvextir af skuldum við lánastofnanir eru 8,45% (2021: 4,88%).
Félagið hefur innleitt ferla í fjárstýringu til að tryggja að viðskiptaskuldir séu greiddar innan umsamins greiðslufrests.
Félagið stýrir fjármagni sínu þannig að það viðhaldi rekstrarhæfi sínu á arðsemi hagaðila með sem bestu jafnvægi á milli skulda og eigin fjár. Félaginu ber ekki að fylgja ytri reglum um lágmarkseiginfjárstöðu.
Fjármálasvið félagsins fylgist með og greinir fjárhagslegar áhættur í rekstri þess. Aðferðir vegna áhættustýringar eru yfirfarnar reglulega til að greina breytingar á markaði og starfsemi félagsins. Eftirfarandi áhættur hafa verið greindar vegna fjármálagerninga félagsins: markaðsáhætta, útlánaáhætta og lausafjáráhætta.
Stjórnendur félagsins telja helstu markaðsáhættu vera vegna vaxtabreytinga þar sem vaxtaberandi skuldir félagsins bera breytilega vexti. Áhættunni eru stjórnað með eftirliti með vaxtaþróun og viðeigandi blöndu af lánum með föstum og breytilegum vöxtum eftir því sem fjárhagsdeild telur æskilegt hverju sinni.
Vaxtaáhætta er áhættan af því að gangvirði eða framtíðarsjóðstreymi fjármálagerninga muni sveiflast vegna breytinga á markaðsvöxtum. Vaxtaáhætta myndast þar sem að stærstur hluti langtímaskuldafélagsins ber breytilega vexti.
Vaxtakjör á lántökum félagsins koma fram í skýringu fyrir langtímaskuldir.
Í töflunni hér fyrir neðan er sýnt hver áhrif af 5% og 10% hækkun vaxta hefði á afkomu og eigið fé á reikningsskiladegi. Næmnigreiningin tekur til þeirra vaxtaberandi eigna og skulda sem bera breytilega vexti og miðast hún við að allar aðrar breytur en þær sem eru hér til skoðunar séu fastar. Næmnigreiningin endurspeglar þau áhrif sem koma fram í rekstrarreikningi og eigin fé án skattaáhrifa.
Í útlánaáhættu felst áhættan í því að mótaðilar félagsins geti ekki staðið við skuldbindingar sínar, sem leiðir til þess að það tapar á fjármálagerningum sínum. Lánsáhætta félagsins stafar einkum af viðskiptakröfum og skuldabréfaeign. Stjórnendur félagsins fylgjast reglulega með þróun þeirra eigna sem tengjast útlánaáhættu og hafa sett útlánareglur hvað varðar samþykki og gjaldfrest nýrra viðskiptavina til að lágmarka lánsáhættu. Þær útlánareglur eru yfirfarnar reglulega til að endurspegla breyttar aðstæður mótaðila. Ekki er tekið tillit til undirliggjandi trygginga við mat á hámarksútlánaáhættu.
Hámarksútlánaáhætta félagsins er sú bókfærða staða sem sundurliðuð er hér að neðan.
Félagið hefur metið vænt útlánatap vegna viðskiptakrafna, sjá nánar í skýringu 11. Skuldabréfaeign er tryggð með veði í fasteign og hlutabréfum í skuldara. Félagið metur vænt útlánatap vegna skuldabréfaútgáfu sérstaklega á hverjum reikningsskiladegi og telur að miðað við stöðu skuldara og virði veða sé ekki þörf á niðurfærslu. Reikningsskilaaðferðir við mat á væntu útlánatapi má finna í skýringu 20.15.
Lausafjáráhætta er sú áhætta sem felst í því tapi sem félagið gæti orðið fyrir vegna þess að það getur ekki staðið við skuldbindingar sínar innan tilskilinna gjaldfresta. Stjórnendur félagsins fylgjast með lausafjárstöðu þess með greiningu á gjalddaga fjáreigna og skulda til að geta endurgreitt allar skuldir á gjalddaga. Reglulega er fylgst með stöðu lausafjár, þróun sem orðið hefur og hvaða áhrif staða markaða og framtíðarhorfur geta haft á félagið.
Samningsbundnar afborganir af fjárskuldum, að meðtöldum áætluðum vaxtagreiðslum, greinast þannig. Fjárhæðir eru ekki núvirtar.
Stjórnendur telja að bókfært verð fjáreigna og fjárskulda í reikningsskilum félagsins endurspegli gangvirði þeirra.
Viðskipti við tengd félög á árinu 2022
Viðskipti við tengd félög á árinu 2021
Viðskipti við tengda aðila eru á armslengdarkjörum.
Útistandandi stöður eru ótryggðar og verða gerðar upp með reiðufé. Engar ábyrgðir hafa vegna þeirra. Engin niðurfærsla hefur verið færð vegna krafna á tengda aðila.
Laun, hlunnindi og mótframlag í lífeyrissjóð stjórnar og stjórnenda félagsins á árinu greinast þannig:
* Framkvæmdastjórar eru: Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, Hallur Geir Heiðarsson og Stefán Ragnar Guðjónsson.
** Gjaldfærðir starfslokasamningar á árinu námu um 60 millj. kr.
Stjórn félagsins hefur samþykkt hvatakerfi sem gildir fyrir æðstu stjórnendur félagsins. Getur ávinningur lykilstjórnenda að mestu orðið ígildi þriggja mánaða launa, heildargreiðslur á árinu 2022 voru 16,8 millj. kr.
Handbært fé samanstendur af óbundnun bankainnstæðum og sjóði. Handbært fé sem fram kemur í yfirliti um sjóðstreymi samanstendur af eftirfarandi fjárhæðum:
COVID-19 heimsfaraldurinn hafði talsverð áhrif á rekstur félagsins í ársbyrjun 2022. Félagið gegnir mikilvægu hlutverki á Íslandi með rekstri matvöruverslana um allt land. Aðgerðir stjórnenda miðuðu að því að halda verslunum opnum en jafnframt tryggja öryggi og velferð starfsmanna og viðskiptavina í krefjandi aðstæðum samkomutakmarkana á árinu. Áhersla var einnig lögð á að vinna með birgjum til þess að tryggja óbreytt vöruframboð.
Ársreikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir eru samþykktir af Evrópusambandinu.
Ásreikningurinn er gerður eftir kostnaðarverðsaðferð. Sögulegt kostnaðarverð byggir á gangvirði endurgjaldsins sem greitt er fyrir vöru og þjónustu. Ársreikningur er birtur í íslenskum krónum sem er starfsrækslugjaldmiðill félagsins.
Viðskiptavild sem myndast við sameiningu er færð til eignar á sameiningardegi á kostnaðarverði að frádreginni virðisrýrnun ef við á. Viðskiptavild er mismunur á kaupverði félags og hlutdeildar í hreinni eign þess eftir að eignir og skuldir hafa verið metnar til gangvirðis á sameiningardegi.
Við framkvæmd virðisrýrnunarprófs er viðskiptavildinni skipt niður á fjárskapandi einingar. Þær fjárskapandi einingar sem að viðskiptavildinni hefur verið úthlutað á eru prófaðar að minnsta kosti árlega, en oftar ef að vísbendingar eru um að virðisrýrnun hafi átt sér stað. Ef bókfært verð er lægra en endurheimtanlegt virði þeirra hefur virðisrýrnun átt sér stað. Hafi virðisrýrnun átt sér stað er viðskiptavild fyrst færð niður og síðar aðrar eignir sem tilheyra viðkomandi fjárskapandi einingu. Óheimilt er að bakfæra áður færða virðisrýrnun vegna viðskiptavildar á síðari tímabilum.
Við niðurlagningu eða sölu á fjárskapandi einingu er fjárhæð viðskiptavildar sem tilheyrir einingunni hluti af hagnaði eða tapi einingarinnar.
Tekjur af vörusölu
Tekjur af vörusölu eru metnar á gangvirði þess endurgjalds sem innheimt er, eða vænst er að innheimt verði, að frádregnum afsláttum og öðrum endurgreiðslum. Tekjur eru skráðar í rekstrarreikning þegar yfirráð yfir seldum vörum flytjast yfir til kaupanda, sem er almennt við afhendingu viðkomandi vara, og líklegt þykir að endurgjaldið verði innheimt. Tekjur af vörusölu eru að stærstum hluta gegn staðgreiðslu, en þegar um er að ræða sölu gegn gjaldfresti er gjalddagi almennt um 30–60 dögum frá því að varan er afhent og tekjur skráðar. Félagið færir ekki skuldbindingu vegna skilavara þar sem söguleg reynsla sýnir að um óverulegar upphæðir er að ræða.
Vaxtatekjur
Vaxtatekjur eru færðar þegar líklegt þykir að félagið muni hafa hagrænan ávinning af þeim og unnt er að meta fjárhæð teknanna með áreiðanlegum hætti.
Við upphaflega skráningu metur félagið hvort samningur teljist vera leigusamningur eða innihaldi leigusamning. Félagið skráir nýtingarrétt til eignar og samsvarandi leiguskuldbindingu vegna allra leigusamninga, nema skammtímaleigu (til skemmri tíma en 12 mánaða) og fyrir leigueignir með lágt virði þar sem leigugreiðslur eru færðar línulega á meðal rekstrargjalda yfir leigutímann.
Leiguskuldbinding er upphaflega metin á núvirði framtíðarleigugreiðslna. Leigugreiðslur eru núvirtar með innbyggðum vöxtum í samningi, eða ef þeir eru ekki aðgengilegir, með vöxtum af viðbótarlánsfé. Leiguskuldbinding samanstendur af föstum greiðslum að frádregnum leiguhvötum, breytilegum greiðslum vegna vísitölu, væntu hrakvirði og kaupréttum á leigueignum ef líklegt er talið að þeir verði nýttir.
Leigugreiðslur skiptast í vaxtagjöld og greiðslur af höfuðstól sem koma til lækkunar á leiguskuldbindingu. Félagið endurmetur leiguskuldbindingu ef leigutímabil breytist, ef leigugreiðslur breytast vegna vísitölutengingar eða þegar breytingar eru gerðar á leigusamningi sem ekki leiða til þess að nýr leigusamningur er skráður.
Nýtingarréttur er afskrifaður á því sem styttra reynist af líftíma leigusamnings eða leigueignar. Ef leigusamningur leiðir til eigendaskipta eða ef bókfært verð nýtingarréttar felur í sér kauprétt á leigueign, þá er nýtingaréttur afskrifaður á líftíma leigueignar. Nýtingarréttur er afskrifaður frá upphafsdegi leigusamnings.
Breytilegar leigugreiðslur sem eru ekki vísitölutengdar eru ekki hluti af leiguskuldbindingu eða nýtingarrétti eignar, heldur gjaldfærðar á því tímabili sem þær falla til.
Félagið nýtir sér heimild IFRS 16 til þess að skilja ekki samningsbundnar greiðslur vegna þjónustuþáttar (eða aðrar greiðslur sem ekki teljast til leigu) frá leigugreiðslum við mat á leiguskuldbindingu og nýtingarrétti.
Viðskipti í erlendum gjaldmiðlum eru færð í starfrækslugjaldmiðli félagsins á gildandi gengi þess dags sem viðskiptin fara fram. Peningalegar eignir og skuldir í erlendum gjaldmiðlum eru færðar miðað við gengi í lok reikningsskiladags. Ópeningalegar eignir sem færðar eru á sögulegu kostnaðarverði eru ekki uppfærðar vegna gengisbreytinga. Gengismunur sem myndast er færður í rekstrarreikning miðað við eðli þeirra viðskipta sem hann tengist. Gengismunur af handbæru fé er tilgreindur sérstaklega sem gengismunur í rekstrarreikningi á meðal fjármagnsliða.
Tekjuskattur er færður í rekstrarreikning nema þegar hann tengist liðum sem færðir eru beint á eigin fé, en þá er tekjuskatturinn færður á eigin fé. Útreikningur hans byggir á afkomu fyrir skatta að teknu tilliti til varanlegra mismuna á skattalegri afkomu og afkomu samkvæmt ársreikningi.
Tekjuskattur til greiðslu er tekjuskattur sem áætlað er að komi til greiðslu á næsta ári vegna skattskylds hagnaðar fjárhagsársins.
Frestaður skattur stafar af mismun efnahagsliða í skattuppgjöri annars vegar og ársreikningi hins vegar. Mismunurinn stafar af því að tekjuskattstofn félagsins er miðaður við aðrar forsendur en reikningsskil þess. Frestaður tekjuskattur er ekki færður vegna tímabundins mismunar sem verður til við upphaflega skráningu viðskiptavildar.
Varanlegir rekstrarfjármunir eru upphaflega skráðir á kostnaðarverði. Kostnaðarverð varanlegra rekstrarfjármuna samanstendur af kaupverði og öllum beinum kostnaði við að koma eigninni í tekjuhæft ástand.
Afskriftir eru reiknaðar línulega miðað við áætlaðan nýtingartíma rekstrarfjármuna og færðar í rekstrarreikning. Eignir í fjármögnunarleigu eru afskrifaðar línulega á samningstíma þeirra eða nýtingartíma, hvort sem styttra reynist, nema líklegt þyki að félagið muni eignast eignina í lok leigutímans.
Hagnaður eða tap vegna sölu eigna telst mismunur söluverðs og bókfærðs verðs eigna á söludegi og er færður í rekstrarreikning á því tímabili sem salan á sér stað.
Keyptar óefnislegar eignir með takmarkaðan líftíma eru færðar á kostnaðarverði að frádregnum uppsöfnuðum afskriftum og virðisrýrnun. Afskriftir eru færðar línulegar í rekstrarreikning á áætluðum líftíma eignanna. Keyptar óefnislegar eignir með ótakmarkaðan líftíma eru færðar á kostnaðarverði að frádreginni uppsafnaðri virðisrýrnun.
Félagið metur á reikningsskiladegi hvort vísbendingar séu til staðar um að efnislegar og óefnislegar eignir séu virðisrýrðar. Ef slíkar vísbendingar eru fyrir hendi metur félagið endurheimtanleg virði viðkomandi eignar til að ákvarða upphæð virðisrýrnunar (ef einhver er). Ef ekki reynist unnt að meta endurheimtanlegt virði einstakra eigna, er endurheimtanlegt virði minnstu aðgreinanlegu sjóðskapandi einingar sem viðkomandi eign tilheyrir metið.
Virðisrýrnunarpróf er framkvæmt á óefnislegum eignum með ótakmarkaðan líftíma og óefnislegum eignum sem ekki hafa verið teknar í notkun að minnsta kosti árlega, og oftar ef vísbendingar um virðisrýrnun eru til staðar.
Endurheimtanlegt virði er gangvirði eignar að frádregnum sölukostnaði eða nýtingarvirði hennar í rekstri, hvort heldur sem hærra reynist. Ef endurheimtanlegt virði eignar (eða sjóðskapandi einingar) er metið vera lægra en bókfært verð, er bókfært verð fært niður í endurheimtanlegt virði. Virðisrýrnun er færð í rekstrarreikning nema eignin sé færð samkvæmt endurmatsaðferð. Heimilt er að bakfæra virðisrýrnun á síðari stigum, en þó aldrei umfram bókfært verð viðkomandi eignar (eða sjóðskapandi einingar) hefði virðisrýrnun ekki verið færð.
Vörubirgðir eru metnar á kostnaðarverði eða hreinu söluverði hvort sem lægra reynist. Kostnaðarverð birgða samanstendur af kostnaði við öflun þeirra ásamt öðrum kostnaði sem fellur til við að koma birgðum í söluhæft ástand. Hreint söluverð er áætlað söluverð að frádregnum áætluðum sölukostnaði.
Skuldbindingar eru færðar þegar félagið ber lagalega eða líklega greiðsluskyldu vegna liðinna atburða og hægt er að meta fjárhæð hennar með áreiðanlegum hætti.
Fjáreignir og fjárskuldir eru færðar þegar samningsbundinn réttur eða skylda til greiðslu myndast hjá félaginu.
Fjáreignir og fjárskuldir eru færðar á gangvirði við upphaflega skráningu. Viðskiptakostnaði, sem rekja má beint til kaupa eða útgáfu fjáreigna eða fjárskulda, sem ekki eru færð á gangvirði í gegnum rekstrarreikning, er bætt við eða hann dreginn frá gangvirði við upphaflega skráningu eftir því sem við á. Viðskiptakostnaður vegna fjáreigna eða fjárskulda á gangvirði í gegnum rekstrarreikning er færður strax í rekstrarreikning.
Fjáreignum ber samkvæmt IFRS 9 að skipta í þrjá flokka; fjáreignir á afskrifuðu kostnaðarverði, fjáreignir á gangvirði í gegnum rekstrarreikning eða fjáreignir á gangvirði í gegnum aðra heildarafkomu. Flokkun þeirra fer eftir eðli og viðskiptalíkani félagsins fyrir viðkomandi fjáreignir.
Fjáreignir á afskrifuðu kostnaðarverði
Fjáreign sem áætlað er að eiga til gjalddaga og samningsbundnar greiðslur á settum gjalddögum samanstanda einungis af afborgunum af höfuðstól og vöxtum, skal skrá á afskrifuðu kostnaðarverði nema gerningurinn sé skilgreindur á gangvirði í gegnum rekstrarreikning í samræmi við gangvirðisheimildina. Slíkar eignir eru upphaflega færðar á gangvirði að viðbættum öllum tengdum viðskiptakostnaði. Eftir upphaflega skráningu eru slíkar fjáreignir metnar á afskrifuðu kostnaðarverði miðað við virka vexti, að frádreginni virðisrýrnun. Fjáreignir félagsins sem metnar eru á afskrifuðu kostnaðarverði eru skuldabréfaeign, viðskiptakröfur og handbært fé.
Fjáreignir á gangvirði í gegnum rekstrarreikning
Eignarhlutar í öðrum félögum þar sem félagið hefur ekki yfirráð eða veruleg áhrif eru metnir á gangvirði í gegnum rekstrarreikning. Umræddar fjárfestingar teljast óverulegar.
Virkir vextir
Vaxtatekjur af fjáreignum öðrum en þeim sem metnar eru á gangvirði í gegnum rekstrarreikning eru færðar miðað við virka vexti nema fyrir skammtímakröfur þegar áhrif afvöxtunar eru óveruleg.
Virkir vextir eru sú ávöxtunarkrafa sem núvirðir áætlað sjóðstreymi yfir áætlaðan líftíma fjármálagernings, eða yfir styttra tímabil ef við á, þannig að það jafngildi bókfærðri fjárhæð fjáreignarinnar við upphaflega skráningu.
Virðisrýrnun fjáreigna
Fjáreignir félagsins sem falla undir gildissvið virðisrýrnunarlíkans IFRS 9 eru skuldabréfaeign, viðskiptakröfur og handbært fé. Félagið beitir sértæku mati á virðisrýrnun hverrar kröfuskuldabréfaeignar fyrir sig.
Við mat á væntu útlánatapi fyrir viðskiptakröfur beitir félagið einfaldaðri nálgun. Sú nálgun krefst þess að félagið meti niðurfærslu sem er jöfn væntu útlánatapi á líftíma viðskiptakrafnanna. Viðskiptakröfum félagsins er skipt niður í flokka eftir þeim fjölda daga sem þær eru komnar fram yfir gjalddaga. Við mat á föstu niðurfærsluhlutfalli fyrir hvern flokk er horft til sögulegrar tapsögu félagsins, leiðréttri fyrir framtíðarvæntingum um efnahagslega þróun ef þörf er á.
Á hverjum reikningsskiladegi er kannað hvort til staðar sé hlutlæg vísbending um virðisrýrnun fjáreigna. Fjáreign hefur rýrnað í virði ef hlutlægar vísbendingar eru um að einn eða fleiri atburðir, sem hafa orðið, hafa áhrif á vænt framtíðarsjóðstreymi eignarinnar og hægt er að meta virðisrýrnun með áreiðanlegum hætti. Félagið færir sértæka niðurfærslu fyrir fjáreignir þar sem hlutlæg vísbending er um virðisrýrnun.
Breytingar á virðisrýrnunarframlagi fjáreigna í afskriftareikning eru færðar í rekstrarreikningi á því tímabili sem matið fer fram. Virðisrýrnun er bakfærð ef unnt er að tengja bakfærsluna með hlutlægum hætti við atburð sem átt hefur sér stað eftir að virðisrýrnun var færð.
Afskráning fjáreigna
Félagið afskráir fjáreignir þegar samningsbundinn réttur til framtíðarsjóðstreymis af fjáreigninni er ekki lengur til staðar eða þegar áhætta og ávinningur af fjáreigninni flytjast yfir til annars aðila.
Eiginfjárgerningur er hvers konar samningur sem felur í sér eftirstæða hagsmuni í eignum félags eftir að allar skuldir hans hafa verið dregnar frá. Eiginfjárgerningar útgefnir af félaginu eru skráðir á kostnaðarverði að frádregnum beinum kostnaði við útgáfu þeirra.
Kaup á eigin hlutum eru færð til lækkunar á heildarhlutafé. Enginn hagnaður eða tap eru færð í rekstrarreikning vegna kaupa, sölu eða útgáfu á eigin hlutum.
Fjárskuldir eru metnar á afskrifuðu kostnaðarverði miðað við virka vexti.
Félagið afskráir fjárskuldir eingöngu þegar skuldbinding vegna þeirra er ekki lengur til staðar. Hagnaður eða tap vegna afskráningar eru færð í rekstrarreikning.
Allur fjármagnskostnaður er færður í rekstarreikning á því tímabili sem hann fellur til miðað við aðferð virkra vaxta. Lántökukostnaður er eignfærður og færður í rekstrarreikning á líftíma lána miðað við virka vexti.
Gerð ársreikninga í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla krefst þess að stjórnendur taki ákvarðanir, meti og gefi sér forsendur sem hafa áhrif á beitingu reikningsskilaaðferða og birtar fjárhæðir eigna, skulda, tekna og gjalda. Reikningshaldslegt mat og undirliggjandi forsendur eru byggðar á sögulegum gögnum og öðrum viðeigandi þáttum. Endanleg niðurstaða kann að vera frábrugðin þessu mati.
Reikningshaldslegt mat og undirliggjandi forsendur þess eru endurskoðaðar reglulega. Áhrif breytinga á reikningshaldslegu mati eru færð á því tímabili sem að matið er endurskoðað og á síðari tímabilum ef við á.
Upplýsingar um mikilvægar ákvarðanir þar sem mat stjórnenda og reikningsskilaaðferðir hafa mest áhrif á skráðar fjárhæðir eigna og skulda í ársreikningnum er að finna í eftirfarandi skýringum: