Samkaupa­liðið

Starfsfólk Samkaupa er ein helsta auðlind fyrirtækisins og lykilþáttur í að ná góðum árangri. Gildi Samkaupa, kaupmennska, áræðni, sveigjanleiki og samvinna, eru hornsteinar í starfi Samkaupa og leiðarljós í að gera Samkaup að eftirsóttum vinnustað þar sem jafnrétti og jafnræði allra eru virt og þar sem allir einstaklingar hafa jöfn tækifæri á öllum sviðum.  

„Við erum alltaf að læra, hvernig við getum bætt okkur á öllum sviðum og það að setja athyglina á jafnréttismálin aðstoðar okkur í að gera betur. Ég get með sanni sagt að liðsheild, orka og þrautseigja einkenni starfsfólk Samkaupa. Fólkið í Samkaupaliðinu stendur saman og er ávallt tilbúið að leggja sitt af mörkum til að mæta viðskiptavinum á sem bestan máta. Samkaup eru eitt öflugasta fyrirtækið á Íslandi, með einstakan hóp starfsmanna sem í sameiningu getur allt,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Samkaupa.

Samkaupaliðið

Mannauður Samkaupa 

Nokkrar skemmtilegar staðreyndir um starfsfólk Samkaupa.

Hjá Samkaupum starfar fólk af 38 þjóðernum frá 4 heimsálfum.

Algengasta nafnið meðal starfsfólks Samkaupa er Anna. Í öðru sæti er Aron og Helga í því þriðja.

Kynjahlutfall starfsfólks er mjög jafnt: 51% eru karlar, 48% konur og 1% með hlutlausa skráningu.

Hjá Samkaupum starfa flestir á höfuðborgarsvæðinu, eða 557, 295 eru á Norðurlandi og 174 á Suðurnesjum.

Dreifing afmælisdaga er nokkuð jöfn en meðal starfsfólks eru flestir krabbar, naut og sporðdrekar.

Hjá Samkaupum starfar fólk á öllum aldri en flestir eru 19 ára og yngri, eða 590. 405 eru í aldurshópnum 20–29 ára og 225 í hópnum 30–39.

Samkaupaliðið

Jafnrétti

Jafnrétti á vinnustaðnum og jafnrétti í samfélaginu hafa verið sérstök áhersluverkefni hjá Samkaupum síðustu ár. Framkvæmdastjórn Samkaupa hefur skuldbundið sig í allri stefnumótun að stuðla að auknu jafnrétti og samþykkt jafnréttisáætlun fyrirtækisins sem er hluti af mannauðsstefnu félagsins. Framkvæmdastjórn Samkaupa hefur samþykkt jafnréttisáætlun, sem er í samræmi við lög nr. 10/2008, nr. 86/2018, nr. 80/2019, sem og önnur lög, reglur og kröfur er snerta jafnréttismál og gilda á hverjum tíma fyrir sig. 

Stefna Samkaupa í jafnréttismálum

Samkaup leggja áherslu á jafnrétti kynjanna og nýta til jafns styrkleika allra kynja þannig að hæfileikar, kraftar og færni alls starfsfólks fyrirtækisins njóti sín sem best. Með jafnréttisáætlun Samkaupa hafa stjórnendur skuldbundið sig til að leggja áherslu á jafnrétti þar sem hver einstaklingur er metinn að verðleikum eftir hæfni og frammistöðu.

  • Samkaup greiða starfsfólki af öllum kynjum jöfn laun og bjóða sömu kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. 
  • Samkaup bjóða jafnan aðgang að störfum ásamt jöfnum tækifærum til framgangs í starfi, óháð kyni, kynhneigð, þjóðerni og fötlunar.
  • Samkaup bjóða starfsfólki sömu tækifæri til að þróast í starfi með starfsþjálfun, menntun og fræðslu, óháð kyni, kynhneigð, þjóðerni og fötlunar.
  • Samkaup leggja áherslu á að vera fjölskylduvænn vinnustaður þar sem hægt er að samræma skyldur fjölskyldu og atvinnulífs.

Samkaup líða ekki kynbundna eða kynferðislega áreitni, einelti eða ofbeldi á nokkurn hátt. Hjá Samkaupum er lögð áhersla á að allt starfsfólk sé metið að verðleikum og njóti jafnra tækifæra á vinnustaðnum. Starfsfólki er ekki mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernis, kynhneigðar, aldurs, trúar, fötlunar, skoðana eða annarra þátta. Árlega rýna stjórnendur stefnuna ásamt jafnréttisáætlun, jafnréttismarkmiðum og vinna að stöðugum umbótum. 

Árið 2022 hlutu Samkaup Jafnvægisvogina, þriðja árið í röð, viðurkenningu FKA til fyrirtækja sem stefna að 40/60 kynjahlutfalli í efsta stjórnendalagi, hafa gripið til aðgerða til að ná því fram og haga ráðningum í stöður í samræmi við þær. 

Samkaup hlutu The Blaze Awards í flokknum The Synergist en verðlaunin voru afhent á samnorrænni jafnréttisráðstefnu í Osló. Samkaup voru í flokki með öðrum fyrirtækjum á öllum Norðurlöndunum og hrepptu verðlaunin vegna skuldbindingar fyrirtækisins í jafnréttismálum og þeirri vegferð sem fyrirtækið er á í þessum málaflokki.

Við erum alltaf að læra hvernig við getum bætt okkur á öllum sviðum og það að setja athyglina á jafnréttismálin aðstoðar okkur í að gera betur.
Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Samkaupa

Jafnrétti fyrir öll – Samkaup alla leið!

Samkaup halda áfram að taka skref í átt að fullkomnu jafnrétti með endurbættri jafnréttisstefnu sem, auk þess að stuðla að jafnrétti allra kynja, leggur áherslu á jafnrétti þriggja hópa sem starfa innan Samkaupa. Þessir hópar eru: starfsfólk af erlendum uppruna, starfsfólk með skerta starfsgetu og hinsegin starfsfólk. Blaze-verðlaunin gefa til kynna að Samkaup séu á réttri leið með þessari útvíkkuðu jafnréttisstefnu. Henni verður áfram haldið á lofti og hún innleidd í ákveðnum skrefum. 

Stór skref voru tekin árið 2022 og ber þar hæst stofnun Jafnréttisráðs Samkaupa: Samráð. Óskað var eftir þátttöku starfsfólks af öllum stigum fyrirtækisins og komu 20 manns saman, verslunarfólk, verslunarstjórar, mannauðsfólk og fulltrúi úr framkvæmdastjórn. Ráðið miðar að því að skapa vettvang fyrir starfsfólk til að hafa áhrif á vinnustaðinn, bæði inn á við og út á við. Meðlimir ráðsins hafa umboð til að taka á málum sem koma upp er varða starfsfólk eða viðskiptavini og standa fyrir fræðslu á sínum vinnustöðvum. Við stofnun ráðsins fékk hópurinn fræðslu á tveggja daga námskeiði þar sem fulltrúar Samtakanna '78, Þroskahjálpar og Mirru, rannsóknar- og fræðsluseturs um málefni innflytjenda, héldu fyrirlestra og fræðsluerindi. Samkaup hafa framlengt samstarfssamning sinn við öll þessi samtök um fræðslu og sérfræðiaðstoð til starfsfólks Samkaupa. Sóley Tómasdóttir, kynja- og fjölbreytileikafræðingur, fræddi hópinn um jafnrétti og fjölbreytileika á vinnustöðum. Hún lagði ýmis verkefni fyrir hópinn og hjálpaði til við að setja jafnréttisráðið saman, mynda stefnu þess og tilgang.

Mannauðsteymi Samkaupa og Gunnar Egill forstjóri taka á móti Blaze-verðlaununum.

Jafnlaunavottun

Þegar heildarfjöldi stjórnenda er skoðaður út frá kynjahlutföllum er jafnvægi á milli kynja mjög gott, 50% karlar og 50% konur. Stærsti hópur stjórnenda félagsins eru verslunarstjórar sem eru 64 talsins. Þegar litið er á kynjaskiptingu verslunarstjóra er jafnvægi gott: 50% karlar og 50% konur. Þá hefur verið lögð áhersla á að fjölga konum í efsta stjórnendalagi félagsins sérstaklega og í dag er helmingur framkvæmdastjóra kvenkyns. 

Árið 2018 hlaut félagið jafnlaunavottun án athugasemda og fór félagið í gegnum fimmtu úttektina á jafnlaunakerfinu í nóvember 2022 án athugasemda. Félagið hefur fengið hrós fyrir skilvirkt og gott kerfi sem er að skila markvissum árangri. Aðgerðir síðustu ára hafa skilað því að launamunur er vart mælanlegur, eða 0,2%. 

Þróun launamunar hjá Samkaupum

Samkaupaliðið

Velferðar­þjónustan

Velferðarþjónustu Samkaupa er ætlað að stuðla að auknum lífsgæðum starfsmanna og að Samkaup bjóði upp á þjónustu til að takast á við óvænt áföll og erfiðleika ásamt því að auka ánægju og öryggi allra starfsmanna. Velferðarþjónustan tryggir að starfsmenn og nánustu ættingjar þeirra geti leitað aðstoðar hjá breiðum hópi fagaðila vegna persónulegra mála sér að kostnaðarlausu og án milligöngu stjórnenda fyrirtækisins. Heilsuvernd hefur umsjón með velferðarþjónustunni fyrir Samkaup.

Starfsmönnum bjóðast að meðaltali 3 klukkustundir í þjónustu á ári sem þeir geta ráðstafað en hámarksaðstoð til einstaks starfsmanns getur numið allt að 6 klukkustundum á ári. Eftirfarandi þjónustuþættir standa starfsmönnum Samkaupa til boða:

Lífsstílsráðgjöf

Mataræði, svefn og hreyfing, þyngdarstjórnun, reykingar, hár blóðþrýstingur, há blóðfita, offita og áunnin sykursýki eða hætta á slíkum lífsstílssjúkdómum – fyrir þá sem þurfa á stuðningi við breyttan lífsstíl að halda til frambúðar.

Hjónabands- og fjölskylduráðgjöf

Tekur mið af áhrifamætti fjölskylduheildarinnar og velferð hennar höfð að leiðarljósi: Samspil atvinnu- og fjölskyldulífs, ofbeldi á heimilum, vandamál með börn og/eða unglinga, hjúskaparerfiðleikar.

Vandamál tengd fíkn

Áfengis-, vímuefna- og spilafíkn. Meðferð, forvarnir og ráðgjöf.

Fjámálaráðgjöf

Gjaldþrot, greiðslustöðvanir, ráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna sem eiga í greiðsluerfiðleikum, aðstoð við að öðlast heildaryfirsýn yfir fjármálin og leitun leiða til lausnar. Einnig greina ástæður greiðsluvanda og gera tillögur til úrbóta.

Streitu- og tilfinningastjórnun

Viðbrögð við streitu- og álagstengdri vanlíðan á vinnustað og heima fyrir. Þjónar þeim tilgangi að auka vellíðan í starfi.

Ráðgjafarþjónusta geðlæknis eða geðhjúkrunarfræðings

Geðskoðun, mat og ráðleggingar vegna geðraskana. Sérstök áhersla á einstaklinga sem hafa einkenni þunglyndis og kvíða.

Sálfræðiráðgjöf

Viðtöl vegna ýmiss konar erfiðleika. Ráðgjöf til unglinga og foreldra. Samskiptavandamál í vinnu og heima fyrir, færni og frami.

Lögfræðiráðgjöf

Sambúðarslit, skilnaðar- og forræðismál, gjaldþrot, samningar eða úrlausnarúrræði. Veita upplýsingar um réttarstöðu viðkomandi.

Áfallahjálp

Sálræn skyndihjálp. Stuðningur við þolendur áfalla. Tilfinningaleg úrvinnsla fyrir einstaklinga, fjöslkyldur og hópa. Fræðsla og upplýsingar um algeng sálræn og líkamleg viðbrögð sem komið geta fram við þessar aðstæður og úrræði við þeim. Mat á áhættuþáttum og þörf fyrir eftirfylgni.

Starfsendurhæfing

Aðstoð vegna óvinnufærni með það að markmiði að starfsmaður nái sem fyrst hæfni til að takast á við athafnir daglegs lífs.

Aðstoð vegna langvarandi heilsubrests

Aðstoð við að greina og meta úrræði vegna langvarandi heilsubrests í nánustu fjölskyldu (foreldrar, makar og börn). Aðstoð við að meta og greina úrræði vegna langvarandi veikinda í nánustu fjölskyldu starfsmanns.

Svefnmeðferð

Skert gæði svefns geta aukið streitu og kvíða, skert minni og minnkað einbeitingu. Með hugrænni atferlismeðferð er hægt að bæta svefn og koma í veg fyrir notkun svefnlyfja.

Samkaupaliðið

Menntun og fræðsla

Samkaup eru leiðandi í menntun og fræðslu á meðal fyrirtækja á Íslandi og hefur fyrirtækið sett sér markvissa stefnu í að leggja aukna áherslu á formlegar menntunarleiðir innan verslunar og þjónustu.

Samkaup leggja ríka áherslu á að styðja starfsfólk sitt áfram til starfsþróunar og er eitt af meginmarkmiðum fyrirtækisins að starfsmenn Samkaupa fái tækifæri til að stunda nám samhliða vinnu sem opnar á möguleika til frekari starfsþróunar innan fyrirtækisins og utan þess.

Markmið Samkaupa þegar kemur að fræðslu og menntun starfsfólks eru:

  • Að bæta hæfni og færni starfsfólks í kaupmennsku, þjónustu og verslunarrekstri.
  • Að efla framkomu og þjónustulund starfsfólks við viðskiptavini Samkaupa.
  • Að fyrirtækið styrki einstaklinginn til starfsþróunar.
  • Að auka starfsánægju og jákvætt viðhorf starfsfólks.
  • Að efla menntunarstig starfsfólks Samkaupa til framtíðar.
  • Að gera Samkaup að eftirsóttum vinnustað sem styður fólk áfram til framtíðar.

Samkaup hlutu Menntaverðlaun atvinnulífsins 2022 og er þetta í annað sinn sem Samkaup hljóta verðlaun af þessu tagi fyrir þann framúrskarandi árangur sem hefur náðst í menntunar- og fræðslumálum. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Ljóst er að Samkaup leggja mikinn metnað í vera eftirsóknarverður vinnustaður með markvissri uppbyggingu starfsfólks þar sem lögð er áhersla á tækifæri til þess til að eflast og þroskast, bæði persónulega og í starfi. Mjög jákvætt er að sjá þá áherslu sem lögð er á fjölbreyttar menntaleiðir innan fyrirtækisins sem ná til breiðs hóps starfsfólks sem einnig miðlar þekkingunni á milli vinnustöðva innan fyrirtækisins.“

Samkaup hafa líka verið í samstarfi við Verzlunarskólann og fengið nemendur í starfsnám. Skemmtilegt er að segja frá því að einn starfsnemanna sem var hjá Samkaupum haustið 2022 hefur nú verið ráðinn til starfa hjá fyrirtækinu.

Fyrsti útskriftarhópurinn úr leiðtoganámi Samkaupa.
Samkaupaliðið

Samskipti

Samkaupadagurinn 2022 var haldinn hátíðlegur á síðasta ári, þar sem starfsfólk kom saman og vann að hugmyndavinnu á vegferð Samkaupa að gera verslanir fyrirtækisins framúrskarandi. Um 500 manns tóku þátt og var dagurinn mjög árangursríkur en mörg umbótaverkefni komu út úr hugmyndavinnunni. 

Lagt er upp úr því að góð samskipti séu milli starfsfólks verslana og stjórnenda Samkaupa, m.a. með vinnustofum verslana og kvöldheimsóknum í verslanir þar sem boðið er upp á fræðslu. 

Á síðasta ári sóttu Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs, og Sandra Björk Bjarkadóttir, mannauðsfulltrúi Nettó og Iceland, 19 slíka fundi með starfsfólki 25 verslana og hittu um 330 starfsmenn. Fjallað var m.a. um jafnréttisstefnuna, velferðarþjónustuna, heilsustyrkinn, þjónustustaðla og hlutverk, starfsmannafríðindi og HR Monitor sem mælir starfsánægju.