Umhverfið

Samkaup ætla að vera leiðandi í umhverfismálum á smásölumarkaði. Félagið ætlar að eiga frumkvæði að þróun og innleiðingu á leiðum sem stuðla að sjálfbærni í dagvöruverslunum. Samkaup leggja áherslu á að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni og nýta auðlindir eins og kostur er.

Samkaup hafa einsett sér að leggja áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs, draga úr matarsóun og stuðla að enn betri flokkun á sorpi. 

Umhverfisstefnan nær til allrar starfseminnar. Samkaup leggja áherslu á að efla vitund starfsmanna og áherslu á mikilvægi þess að starfsmenn hugsi um umhverfið í daglegum störfum og fylgi umhverfisstefnunni án undantekninga. Samkaup skrifuðu undir yfirlýsingu sem afhent var á loftslagsráðstefnunni í París árið 2015 um aðgerðir í loftslagsmálum og hafa fylgt henni síðan. 

Við kaup á vöru og þjónustu er tekið mið af umhverfisstefnunni og gerðar skýrar kröfur til birgja og undirverktaka um að þeir fylgi henni. Á það einnig við um undirverktaka birgja.

Samkaup halda nákvæmt umhverfisbókhald um starfsemina. Bókhaldið skal nota til að ákvarða umfang og upphæðir til kolefnisjöfnunar rekstursins sem og gögn fyrir samfélagsskýrslu sem er gefin út árlega.

Samkaup hafa um árabil lagt áherslu á að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæði með því að draga gífurlega úr öllu sorpi sem fellur til í hverri einustu verslun og hafa frá árinu 2015 haldið verkefninu „Minni sóun“ á lofti, þar sem markmiðið er að gefa neytendum kost á að kaupa vörur sem farnar eru að nálgast síðasta söludag eða komnar á síðasta söludag. „Allt skiptir þetta máli. Við höfum sömuleiðis skipt út kælikerfum og dregið verulega úr allri notkun plasts í verslunum okkar. Þá höfum við í gegnum tíðina staðið fyrir ýmiss konar átökum sem miða að því að sporna beint við því að plast endi í sjónum, m.a. staðið fyrir strandhreinsun umhverfis landið í samstarfi við Bláa herinn og fleiru sem hefur opnað augu okkar fyrir því mikla magni plasts sem finnst í hafinu,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa.

Samkaup gerðu tveggja ára samkomulag við Skógræktarfélag Íslands um Opna skóga árið 2020.
umhverfið

Vöktun umhverfisþátta

Til að vinna markvisst að bættum árangri hefur verið innleiddur umhverfisstjórnunarhugbúnaður frá Klöppum.

Með hugbúnaðinum er unnt að vakta og greina alla helstu umhverfisþætti í starfseminni og vinna að lágmörkun umhverfisáhrifa. Vöktunin nær til allra verslana og starfsstöðva Samkaupa.

Einn af kostum þess að nýta hugbúnaðinn frá Klöppum er að auðvelt er að mæla og fylgjast með kolefnisspori fyrirtækisins en eitt stærsta verkefnið er að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

Unnt er að fylgjast með:

  • Losun CO₂ í tonnum.
  • Eldsneytisnotkun.
  • Rafmagnsnotkun.
  • Sorpi.
  • Notkun á heitu vatni.
  • Notkun á köldu vatni.

Við áttum okkur á því að starfsemi okkar hefur neikvæð áhrif á umhverfið beint og óbeint. Aðgerðir okkar miða að því að lágmarka þessi áhrif og fara í mótvægisaðgerðir. 

umhverfið

Hvað gerðum við árið 2022?

Árið 2022 hélt kolefnislosun fyrirtækisins áfram að minnka og dróst saman um 37% á milli ára. Allir liðir í kolefnislosun fyrirtækisins héldu áfram að lækka. Sorpflokkun og minnkun sorps hafa skilað miklum árangri ásamt því að CO₂-væðing kælikerfa í verslunum hefur minnkað rafmagnsnotkun verulega.

Lykiltölur úr umhverfisbókhaldi Samkaupa

Losun úrgangs

Magn úrgangs sem var losaður minnkaði um 49 tonn milli ára. Engin ein verslun stendur upp úr; þetta er afrakstur sameiginlegs átaks.

Hlutfall flokkaðs úrgangs

Hlutfall þess úrgangs sem er flokkaður lækkar á milli ára, eða um 2%.

Raforkunotkun

Á milli ára minnkaði raforkunotkun Samkaupa um 1.786.219 kWst, eða um 10%. Vert er að minnast sérstaklega á CO₂ kæla í Krossmóa og Sunnukrika í þessu samhengi. Í Nettó Krossmóa einni og sér minnkaði raforkunotkun um 20% á milli ára. Raforkan sem sparaðist í þessari einu verslun er á við raforkunotkun 357 heimila.

Eldsneyti

Eldsneytisnotkun vegna aksturs minnkaði töluvert milli ára eða um 27.715 lítra. Helsta ástæðan er endurgerð stefna um bifreiðaflota félagsis. 

CO losun

Á milli ára losuðum við 268 færri tonn af CO₂ ígildum þegar öll kolefnislosun fyrirtækisins, vegna sorps, rafmagns og eldsneytis, er tekin saman. Það er 34% minni kolefnislosun árið 2022 en árið 2021! 

Heitavatnsnotkun er að mestu áætluð því ekki er hægt að styðjast við staðfest raungögn. Gert er ráð fyrir að hún hafi staðið í stað á milli ára.

umhverfið

Árangur í umhverfismálum

Þegar kemur að umhverfisvernd skipta „litlu“ atriðin líka máli, þ.e. hver einasta kílóvattstund sem sparast með hagstæðari orkunotkun, hver einasti poki sem er endurnýttur og hver einasti reikningur sem er sendur með tölvupósti en ekki á pappír telja þegar heildarmyndin er skoðuð. Notkun á orkugjöfum eins og rafmagni, heitu og köldu vatni er mæld mánaðarlega fyrir hverja verslun Samkaupa. Þannig er hægt að koma í veg fyrir óþarfa orkunotkun strax og gera viðeigandi ráðstafanir til að nýta þessa auðlind betur. 

Allir frystar sem hafa verið keyptir nýir eru með lokum, til að spara orku. Öllum frystum í verslunum hefur verið lokað, sem leitt hefur til 40% minni orkunotkunar.

Tilraunaverkefni er hafið í lokuðum kælum verslana sem leitt hefur til 20% minni orkunotkunar. Orka sem kemur frá kælivélum er nýtt til húshitunar ef kostur er.

Í netverslun er notast við pappapoka ásamt fjölnota plastboxum.

Fjölnota pokar hafa verið í notkun í mörg ár en hafa verið gerðir meira áberandi og viðskiptavinir hvattir til að nýta þá. Viðskiptavinir geta skipt út gömlum fjölnota pokum.

Árlega er starfsfólk í verslunum þjálfað í umhverfismálum í samvinnu við þjónustuaðila Samkaupa.

Rafræn samskipti í bókhalds- og reikningshaldi.

Allir bílar í heimkeyrslu fyrir netverslun eru rafbílar.

Við höfum tekið upp rafrænar hillumerkingar í stað límmiða til að draga úr pappírsnotkun.

Við hófum notkun á rafrænum kvittunum í Samkaupa-appinu til að draga úr pappírsnotkun.

Við tókum upp samstarf við Hjálpræðisherinn sem nýtir matvæli sem eru að renna út í heilsusamlegar máltíðir.

Við fækkuðum utanlandsferðum, sóttum frekar fjarfundi og hagnýttum tæknilausnir til að draga úr mengun.

Við gengum frá samningum um enn fleiri hraðhleðslustöðvar við verslanir Samkaupa til að koma til móts við rafbílaeigendur.

Umhverfið

Aðgerðir í umhverfismálum

Endurunnið sjávarplast og bakteríudrepandi handföng

Samkaup hafa samið um framtíðarkaup á innkaupakerrum sem munu leysa eldri kerrur af hólmi. Um er að ræða umhverfisvænustu innkaupakerrur sem völ er á en kerrurnar koma úr Oceans-línu framleiðandans Araven sem er brautryðjandi í endurvinnslu sjávarplasts á heimsvísu. Árlega er talið að átta milljónir tonna af rusli endi í sjónum og um 80% er plast sem ógnar heilbrigði sjávar verulega. 

„Kerrurnar eru endurunnar úr plasti sem fundist hefur í sjónum, þá einna helst veiðarfærum, sem hafa hvað neikvæðust áhrif á lífríki sjávar. Rannsóknir sýna að hefðbundið fiskinet er um 600 ár að brotna niður í sjónum. Á þeim tíma hefur netið gífurleg áhrif á allt lífríki neðansjávar. Miðað við stöðu mála núna stefnir í að árið 2050 verði meira plast og rusl í sjónum heldur en fiskar. Við viljum gera það sem við getum og nýtum því þetta tækifæri til að tvinna saman þörfina fyrir nýja vagna og sporna við magni plasts í sjónum,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Samkaupa.

Kerrurnar eru, sem fyrr segir, umhverfisvænsti kosturinn sem völ er á í dag. Þá eru þær einnig einstaklega hentugar til stöflunar og á þeim eru bakteríudrepandi handföng sem eru sannkölluð nýlunda. „Undangenginn heimsfaraldur hefur kennt okkur ýmislegt og þetta er sannarlega afurð hans. Við erum flest öll farin að hugsa sóttvarnir með öðrum hætti en fyrir faraldur og því er þetta rökrétt viðbót við þjónustuna.“ 

Laufið

Samkaup eru notandi Laufsins sem er stafrænn vettvangur þar sem stjórnendur íslenskra fyrirtækja geta sameinast og hagnýtt sér fjölbreytt verkfæri í vegferð að sjálfbærari fyrirtækjarekstri, samfélagslegri ábyrgð og í baráttunni við loftslagsvána. 

Laufið er fyrsta græna íslenska upplýsingaveitan. Henni er ætlað að valdefla neytendur og gefa þeim kost á að taka upplýstar ákvarðanir um neyslu sína eftir því hversu vel fyrirtæki eru að standa sig í sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð.

Á laufid.is geta neytendur leitað að fyrirtækjum, vörum og þjónustu og séð nákvæmlega hvað fyrirtæki eru að gera í umhverfis- og sjálfbærnimálum, gert samanburð á fyrirtækjum, leitað að vottuðum vörum og tekið upplýstar ákvarðanir um hvaða vörur og þjónustu þeir kjósa að versla og við hvaða fyrirtæki.

Við hjá Samkaupum erum stolt af því taka þátt í vegferð Laufsins. 

Landgræðsla og skógrækt

Samkaup gerðu tveggja ára samkomulag við Skógræktarfélag Íslands um Opna skóga 2020 og markmiðið með samstarfinu er að bæta aðstöðu og auka aðgengi að opnum skógræktarsvæðum í alfaraleið og miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu svo almenningur geti nýtt sér skóga til áningar, útivistar og heilsubótar.

Opnir skógar eru nú sautján talsins, staðsettir víðsvegar um landið, þar sem boðið er upp á góða útivistaraðstöðu. Unnið verður áfram að þróun og bættu aðgengi þannig að sem flestir landsmenn geti notið þeirra miklu gæða sem felast í skógunum sem eru öllum opnir.

Samkaup og Hjálpræðisherinn vinna saman gegn matarsóun

„Hættum að henda, frystum og gefum“ er yfirskrift verkefnis sem Samkaup og Hjálpræðisherinn hafa gert samning um að vinna að í sameiningu. Verkefnið hverfist um að draga úr sóun á matvælum hjá Samkaupum og styðja þannig við velferðarverkefni Hjálpræðishersins á landsvísu. Verkefnið er farið af stað á Akureyri, í Reykjavík og Reykjanesbæ.

Auk þess að styðja við verkefnið í formi matargjafa sjá Samkaup um að útvega verkefnisstjóra sem aðstoðar verkefnisstjóra Hjálpræðishersins. Þá mun Hjálpræðisherinn annast fræðslu um verkefnið fyrir starfsfólk Samkaupa. 

„Við erum að vinna í að setja upp einfalt ferli fyrir verslanir Samkaupa svo matvælin nýtist sem best, enda er það hagur okkar allra sem samfélags að draga sem mest úr matarsóun og það er nokkuð sem við höfum gert um árabil hjá Samkaupum. Við fögnum þessu samstarfi ákaft enda deilum við hringrásarhugsjóninni með Hjálpræðishernum og við hlökkum mikið til að þróa frekari framtíðarsýn og áætlanir sem snúa að innleiðingu verkefnisins á enn fleiri stöðum á komandi misserum,“ sagði Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Samkaupa, við upphaf átaksins. 

„Þetta samstarf er algjört tímamótaverkefni fyrir okkur hjá Hjálpræðishernum. Við tökum á móti fjölbreyttum hópi fólks, til dæmis á Reykjanesi, sem virkilega þarf á þessari aðstoð að halda. Þetta er mjög þarft samfélagsverkefni sem við sjáum fyrir okkur að muni stækka á næstunni. Það er ómetanlegt að geta gefið fólkinu okkar að borða en ekki síður mikilvægt að gefa þeim tækifæri til að taka þátt og veita fólki þannig hlutverk og tilgang. Meðal þeirra sem koma til okkar eru til dæmis kokkar, sem taka svo þátt í að töfra fram gómsætan mat úr hráefninu sem við fáum frá Samkaupum,“ sagði Bergrún Ólafsdóttir, verkefnastjóri Hjálpræðishersins á Reyjanesi. 

umhverfið

Flokkun sorps

Markmið okkar er að halda almennu sorpi í algjöru lágmarki og við setjum okkur markmið um að auka flokkunarhlutfall á milli ára. Flokkunarmarkmið ársins 2022 var að ná 50% endurvinnsluhlutfalli í öllum verslunum. 

Árið 2022 var heildarmagn helstu úrgangsflokka, almenns sorps, lífræns eldhússúrgangs og bylgjupappa, sem Íslenska gámafélagið (ÍGF) sótti til Samkaupa, um 2.105 tonn. Það er örlítil hækkun á heildarmagni á milli ára þar sem úrgangur nam 2.070 tonnum árið 2021. Tafla 1 og mynd 1 sýna þróun magns á helstu úrgangsflokkum frá 2012.

Magn almenns sorps árið 2022 voru um 958 tonn sem er aðeins meira en árið 2021 þegar það vó rúm 911 tonn. Af þessum 958 tonnum fóru rúm 498 tonn í brennslu til orkunýtingar í Evrópu í stað urðunar á Íslandi. Þar nýtist orkan til rafmagnsframleiðslu og húshitunar í stað kola og olíu og því fylgir þessari aðgerð mikill umhverfislegur ávinningur.

Magn lífræns úrgangs árið 2022 var rúm 223 tonn sem er aukning um 10 tonn á milli ára. Það er til mikils að vinna að flokka lífrænan úrgang vel frá almennu sorpi til að koma í veg fyrir urðun. Með breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs ber öllum sveitarfélögum og lögaðilum að flokka lífrænan úrgang og því munu allar verslanir Samkaupa hefja flokkun á þessum úrgangsflokki á árinu.

Magn bylgjupappa árið 2022 var tæp 924 tonn sem er samdráttur um 20 tonn frá árinu 2021. 

Árið 2022 náðu 29 verslanir Samkaupa að halda endurvinnsluhlutfalli í 50% eða yfir og er það einni verslun færra en árið 2021.

Í fimm ár í röð var Nettó í Hafnarfirði með besta endurvinnsluhlutfallið af öllum verslunum Samkaupa. En nú hefur starfsfólk Kjörbúðarinnar á Hellu heldur betur bætt flokkunarárangur verslunarinnar og er búðin því nýr Flokkari ársins með 82% endurvinnsluhlutfall. Árið 2021 var endurvinnsluhlutfall verslunarinnar um 65% og því er þetta frábær árangur!

umhverfið

Minni sóun

Frá árinu 2007 hefur starfsfólk Samkaupa stöðugt stigið fleiri skref í átt að meiri umhverfisvernd, allt frá aukinni sorpflokkun og almennri endurnýtingu til meiri orkusparnaðar og endurnýtingar orku. Um mitt ár 2015 tóku Samkaup upp átakið „Minni sóun – allt nýtt“ til að stuðla að minni sóun matvæla.

Allar verslanir Samkaupa hafa síðan þá boðið upp á stigvaxandi afslátt af vörum sem nálgast síðasta söludag. Vöruverð lækkar eftir því sem líftími vöru styttist og stuðlar þetta að minni sóun matvöru. Allt þetta undir slagorðinu „Kauptu í dag – notaðu í dag!“ Átakið hefur farið stigvaxandi síðustu ár og náði hámarki árið 2022. Afslættir í gegnum átakið „Minni sóun – allt nýtt“ námu tæplega 365 milljónum í fyrra.

Ár Selt magn Afsláttur án vsk
2019 657.470 247.039.216
2020 715.434 297.842.063
2021 753.562 316.544.304
2022 850.308 364.060.290
Samtals 2.976.773 1.225.485.872
Allar verslanir Samkaupa bjóða stigvaxandi afslátt af vörum sem nálgast síðasta söludag og námu afslættir tæplega 365 milljónum árið 2022.
umhverfið

Kaupum rétt

Innkaupa- og vörustýringarsvið Samkaupa leggur metnað í að velja vörur sem stuðla að umhverfisvænni verslun og miða að breyttu neyslumynstri viðskiptavina. Dæmi um þetta er Änglamark-vörumerkið sem stendur fyrir sjálfbærni og lífrænar vörur. Þá hefur einnig vörumerkið 365 Coop bæst við en það stendur fyrir sömu gildi. Vörurnar eru framleiddar úr bestu fáanlegu gæðahráefnum. Þær eru lífrænar, umhverfisvænar og án ofnæmisvaldandi efna.

Änglamark hefur sterka stöðu á Norðurlöndunum og hefur hlotið mikið lof. Í Danmörku hefur merkið náð sjöunda sæti á topp tíu lista YouGov Brand Index (sem mælir upplifun neytenda af vörumerkjum) og fimmta sæti á Women’s Favorite Brand List. Í Noregi hefur Änglamark hlotið nafnbótina „Grænasta vörumerki Noregs“ og sömu viðurkenningu í Svíþjóð átta ár í röð. Með Änglamark náum við að mæta þörfum markaðarins og erum stolt af því að geta boðið upp á margverðlaunað gæðamerki líkt og Änglamark.

umhverfið

Innlend grænmetis- og ávaxtaræktun

Samkaup hafa á undanförnum árum unnið markvisst að því að auka sölu á íslenskum afurðum. Með góðu samstarfi við bændur og smáframleiðendur færumst við nær markmiðum okkar, tryggjum framboð og fjölbreytileika tegunda, lágmörkum sóun og styðjum við sölu á þeim eftirsóttu matvörum sem eru framleiddar á Íslandi.

Með þéttu neti framleiðenda í öllum landsfjórðungum lágmörkum við kolefnissporin með beinum afgreiðslum í verslanir á nærsvæði hvers framleiðanda.

Nokkur framþróun hefur orðið í afbrigðum margra tegunda, framleiðsluháttum, húsakostum og geymsluskilyrðum sem nú gera okkur kleift að bjóða upp á fleiri íslenskar afurðir árið um kring. Með þessari framþróun náum við að lágmarka innflutning á vörutegundum sem eru framleiddar hérlendis, enda hefur það sýnt sig að neytendur kjósa íslenskt sé þess kostur.

Alek verslunarstjóri í nýrri verslun Nettó Selhellu
umhverfið

Grænar verslanir Samkaupa

Á árinu var Nettó Selhellu opnuð sem er fjórða græna verslun Samkaupa. 

„Við höfum horft til Vallahverfisins í töluverðan tíma; þar er mikil uppbygging og við hlökkum verulega til að opna í haust. Staðsetningin er mjög spennandi og ljóst að þjónusta og fjölbreytni við íbúa hverfisins mun stórbatna. Þetta er fjórða græna verslun okkar sem þýðir að öll tæki eru keyrð á umhverfisvænum orkumiðli, LED-lýsing er í versluninni, allt sorp er flokkað til hins ýtrasta, allir frystar og megnið af kælum eru lokaðir, svo eitthvað sé nefnt. Verslun okkar er rúmgóð með miklum þægindum, björt og vítt til veggja. Við leggjum mikla áherslu á ferskvöruna og það fyrsta sem mætir þér er brakandi ferskt ávaxta- og grænmetistorg. Nettó er leiðandi í heilsusamlegum og lífrænum vörum og fá þær mikið rými. Á hverjum degi verður boðið upp á nýbakað brauð, ferskvörusvæðið okkar verður stórt og vöruúrvalið í heild sinni mjög gott,“ sagði Heiðar Róbert Birnuson, rekstrarstjóri Nettó, fyrir opnun. 

Með grænum verslunum er átt við að öll tæki og starfsemi verslunarinnar eru skipulögð með grænu skrefin í huga. Kælikerfið er keyrt á koltvísýringi (CO₂) í stað annarra kælimiðla sem eru slæmir fyrir umhverfið. Koltvísýringur er umhverfisvænn kælimiðill og má nálgast víða. Að sama skapi eru öll kælitæki lokuð sem kemur í veg fyrir óþarfa orkueyðslu. Við sjáum gríðarmikinn orkusparnað hjá þessari tegund kælitækja miðað við hefðbundnari tæki sem við erum með í öðrum verslunum. Þegar fram í sækir munum við vinna að því að skipta út öllum okkar kælitækjum fyrir þessa gerð kælitækja. 

Grænar verslanir Samkaupa: 
Nettó Selhellu
Nettó Sunnukrika
Nettó Grindavík
Nettó Krossmóa

Markmið Samkaupa er að allar verslanir Samkaupa verði orðnar grænar árið 2030. 

Öll tæki eru keyrð á umhverfisvænum orkumiðli, LED-lýsing er í versluninni, allt sorp er flokkað til hins ýtrasta, allir frystar og megnið af kælum eru lokaðir.
Heiðar Róbert Birnuson, rekstrarstjóri Nettó